Norðmanninum Arnt Roger Myrvoll brá heldur betur í brún þegar hann fann möppu á götu í Finnsnes sem var full af peningum. „Ég reyndi að telja seðlana, en þegar ég var kominn upp í 30 þúsund krónur [630 þúsund] gat ég ekki meir,“ sagði Myrvoll.
Myrvoll segir í samtali við Nordlys að hann hafi sett möppuna í bílinn og ekið áfram í vinnuna. Hann hafi passað sig að læsa bílnum vel. Síðar um daginn fór hann niður á lögreglustöð og afhenti lögreglunni peningana. Í möppunni reyndust vera 48 þúsund norskar krónur sem jafngildir um einni milljón íslenskra króna.
Lögreglan hafði þá fyrir stuttu fengið tilkynningu frá verslun í Finnsnes um að starfsmaður hennar hefði tapað möppunni.
Myrvoll segir í samtali við Nyrlys að það hafi aldrei komið annað til greina í sínum huga en að skila peningunum. Hann segist vona að flestir í þessari stöðu hefðu gert það sama.