Tveimur breskum karlmönnum hefur verið bannað að stíga oftar fæti inn fyrir dyr mongólska veitingastaðarins Gobi í ensku borginni Brighton fyrir þá sök að borða of mikið. Veitingastaðurinn hefur boðið upp á hlaðborð sem gestir geta fengið sér af eins mikið og þeir vilja fyrir 12 pund.
En eigandinn segir mennina, þá George Dalmon og Andy Miles, hafa verið að borða sig út á gaddinn samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þeir munu að staðaldri hafa borðað í hvert skipti sem þeir heimsóttu veitingastaðinn úr fimm bökkum á hlaðborðinu hvor.
„Þeir einfaldlega mæta og borða eins og svín. Við höfum þolað þá í tvö ár en nú höfum við fengið nóg,“ sagði eigandinn í samtali við blaðið sem vildi ekki láta nafns síns getið. „Þeim liggur svo á að verða á undan öllum öðrum að matnum að þeir skemma allt. Þetta á að heita hlaðborð en þeir borða allt úr skálunum áður en fólk kemst að þeim. Við getum ekki staðið í þessu lengur.“
Dalmon segir hins vegar að veitingahúsið ætti að standa undir væntingum. Bakkarnir á hlaðborðinu séu mjög litlir og því þurfi alltaf að fara aftur og aftur og ná sér í meira. Þeir hafi borðað þarna í tvö á en síðan hafi eigandinn skyndilega birst hjá borðinu þeirra fyrir framan alla í æðiskasti og tilkynnt þeim að þeir væru svín og væri bannaður aðgangur fyrir lífstíð.