Börn handtekin fyrir að pissa á kóraninn

Kóraninn lesinn.
Kóraninn lesinn. AFP

Lögregla í Egyptalandi handtók í dag tvö kopta-börn vegna ásakana um að þau hefðu svívirt íslam með því að pissa á blöð sem á voru skrifuð vers úr Kóraninum. 

Börnin heita Nabil Naji Rizq, 10 ára, og Mina Nadi Faraj, 9 ára. Þau voru hneppt í varðhald í dag og verða í haldi í a.m.k. eina viku samkvæmt ákvörðun saksóknara. Þeim er haldið á sérstöku heimili fyrir sakborninga undir lögaldri. 

Börnin tilheyra koptísku kirkjunni, minnihlutasamfélagi kristinna manna í Egyptalandi. Fleiri koptar hafa komist í kast við lögin í Egyptalandi undanfarið, stutt er t.d. síðan kennari sem er kopti var dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir að móðga spámanninn Múhameð á Facebook.

Þá bíður annar kopti réttarhalda fyrir að setja inn á netið brot úr kvikmyndinni Sakleysi múslíma. Sú kvikmynd er einmitt talin vera gerð af egypskum kopta búsettum í Bandaríkjunum. Koptar óttast að myndin muni leiða til frekari ofsókna gegn þeim í Egyptalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka