Kínverskt fyrirtæki stefnir Obama

Vindmylla. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vindmylla. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Kínverska vindmyllufyrirtækið Ralls Corp hefur stefnt Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir að hafa skrifað undir tilskipun til þess að stöðva kaup þess á fjórum vindmylluverkefnum í Oregon.

Þetta er í fyrsta skipti í 22 ár sem erlent fjárfestingaverkefni er stöðvað af bandarískum yfirvöldum. Obama bar fyrir sig þjóðaröryggishagsmunum, í ljósi þess að vindmyllurnar standa nærri starfsstöðvum bandaríska sjóhersins  Kínverjarnir saka hins vegar forsetann um að fara út fyrir valdssvið sitt með ólögmætum hætti. Engar sannanir hafi verið lagðar fram sem styðji þá fullyrðingu að starfsemi Ralls Corp gæti ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Kínverska fréttastofan Xinhua segir í fréttum sínum af málinu að það byggist á hatursáróðri gagnvart Kína og markmið Obama sé að heilla kjósendur úr röðum verkamanna. Mitt Romney, mótframbjóðandi Obama, hefur gagnrýnt hann fyrir of mikla linkind gagnvart Kínverjum.

BBC bendir á nýlega skoðanakönnun sem áhugavert að hafa í huga í ljósi ákvörðunar Obama. Niðurstöður hennar voru m.a. þær að bandarískur almenningur lítur fremur á Kínverja sem keppinauta en sem óvin eða bandamann. Á sama tíma sögðust 52% aðspurðra telja að uppgangur Kína væri helsta ógnin við Bandaríkin.

Mánuður er til forsetakosninga í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert