Brutust inn í ráðuneyti í Aþenu

Starfsmenn skipasmíðastöðvar mótmæla kjörum sínum við varnarmálaráðuneytið í Aþenu í …
Starfsmenn skipasmíðastöðvar mótmæla kjörum sínum við varnarmálaráðuneytið í Aþenu í Grikklandi í morgun. AFP

Rúmlega 200 starfsmenn grískrar skipasmíðastöðvar brutust inn í varnarmálaráðuneyti Grikklands í Aþenu í morgun. Fólkið var þar í mótmælaskyni við að hafa ekki fengið laun sín greidd. 

Fólkið hrópaði „Þjófar. Þjófar“ og braut niður hlið við inngang ráðuneytisins og óeirðalögregla var kvödd á staðinn og beitti kylfum og táragasi til að fá fólkið til að yfirgefa húsið. Er það lét sér ekki segjast, voru allir handteknir.

Fólkið, sem starfar í Hellenic-skipasmíðastöðinni í Skaramangas, litlum bæ í vesturhluta landsins, segist ekki hafa fengið greidd laun í nokkra mánuði. Fyrirtækið hefur reitt sig á skipasmíðar fyrir gríska herinn, en þeim hefur ýmist verið aflýst eða frestað vegna bágrar efnahagsstöðu hersins.

Varnarmálaráðherrann Panos Panayotopoulos var ekki í húsinu, en sagðist myndu hitta mótmælendur að máli um leið og þeir yfirgæfu húsið.

En víðar er mótmælt. Læknar og hjúkrunarfólk á opinberum sjúkrahúsum hyggjast mótmæla við heilbrigðisráðuneyti landsins í dag. Fólkið mótmælir kjaraskerðingu og niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.

Frá mótmælum grískra heilbrigðsstarfsmanna við heilbrigðisráðuneytið í Aþenu í Grikklandi …
Frá mótmælum grískra heilbrigðsstarfsmanna við heilbrigðisráðuneytið í Aþenu í Grikklandi í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert