Glímdu harkalega um efnahagsmál

Barack Obama forseti og forsetaefni Repúblikanaflokksins, Mitt Romney, tókust harkalega á í fyrsta sjónvarpseinvígi þeirra af þremur vegna forsetakosninganna í næsta mánuði. Fóru kappræðurnar fram í Denver í Coloradoríki og snerust fyrst og fremst um efnahagsmál.

Í rúma hálfa aðra klukkustund tókust forsetaframbjóðendurnir tveir á um skattamál, umbætur í heilbrigðiskerfinu og hlut hins opinbera í daglegu lífi. Obama hefur náð smávegis forskoti undanfarið samkvæmt  skoðanakönnunum og var einvígið því mikilvægt fyrir Romney ætlaði hann sér að brúa bilið og ná undirtökum. Því sótti hann stíft fram gegn forsetanum í einvíginu.

Að mati fréttaskýranda breska útvarpsins, BBC, var Romney líflegri í ræðupúltinu, með gott vald á upplýsingum og gögnum, yfirtalaði umræðustjórnandann og greip oft fram í fyrir forsetanum. Að sama skapi hafi Obama virkað óstyrkur í byrjun og þótt hann hafi komist í gang og náð góðum takti hafi hann gripið til þess ráðs að tala lengi í fyrirlestrastíl í stað þess að rökræða og rífast beint við keppinaut sinn.

 „Forsetinn er eiginlega sömu skoðunar og er hann var í framboði fyrir fjórum árum, að eyða meira, skattleggja meira, vera afskiptasamari væri ráðið, ríkisstjórn sem er með puttana í öllu. Það er ekki sú leið sem Bandaríkin þarf á að halda,“ sagði Romney. Hann hét því að lækka ekki skatta á auðmenn og sagði Obama hafa misskilið skattastefnu sína.

Hann gagnrýndi og Obama fyrir að hafa ekki lækkað fjárlagahallan um helming eins og hann hefði lofað 2008 og sagði Bandaríkin ekki geta leyft sér að feta sömu skuldastigu og Grikkland og Spánn hefðu fetað sig niður eftir. Til að lækka hallan sagðist Romney myndu meðal annars uppræta lög Obama um umbætur í heilbrigðisþjónustunni frá 2010 og hætta fjárstuðningi við ríkissjónvarpið.

Obama hristi af sér gagnrýni á fjármálastjórn sína og sneri vörn í sókn með því að halda því fram, að ekki væri neitt jafnvægi í hugmyndum Romney um að draga úr ríkishallanum. „Það verða að koma til tekjur til viðbótar niðurskurði,“ sagði Obama og sagðist vilja sjá endi á skattaafslætti olíufyrirtækja og vegna rekstur forstjóraþota.

Rauði þráðurinn í orðum Romney í kappræðunni var að stjórn Obama á efnahagsmálum hafi verið hrakför ein. Til marks um það væri 8,1% atvinnuleysi og lítill vöxtur í atvinnulífi. Kæmist hann aftur á móti til valda myndi reynsla sín duga til að koma atvinnu- og efnahagslífinu aftur í gang.

Obama sagði mótframbjóðanda sinn aftur á móti fátt fram að færa nema uppsoðnar misheppnaðar lausnir repúblikana sem orsakað hefðu hrunið 2008. Hann sagðist vilja skattleggja ríkustu Bandaríkjamennina til að minka fjárlagahallann og sagði hugmyndir Romney í þeim efnum fallnar til þess að bitna harkalega á millistéttinni.

Romney og Obama í einvíginu í nótt.
Romney og Obama í einvíginu í nótt. mbl.is/afp
Romney og Obama í sóknarham í einvíginu í nótt.
Romney og Obama í sóknarham í einvíginu í nótt. mbl.is/afp
Romney og Obama í einvíginu í nótt.
Romney og Obama í einvíginu í nótt. mbl.is/afp
Romney og Obama fá koss frá konum sínum eftir kappræðurnar.
Romney og Obama fá koss frá konum sínum eftir kappræðurnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert