Tinnabækur valda enn deilum

Tinni veldur deilum.
Tinni veldur deilum. mbl.is

Tíu prósent sænskra bókasafna eru ekki með Tinnabækur í hillum sínum vegna þess að bækurnar þykja bera boðskap kynþáttahyggju.

Þetta kemur fram í nýrri könnun á sænskum bókasöfnum. Sum bókasöfnin höfðu fjarlægt bækurnar alfarið en önnur einungis hluta þeirra.

Sérstaklega þykir bókin um Tinna í Kongó bera keim af kynþáttahyggju. Hana mátti ekki finna á neinu af þeim bókasöfnum sem höfðu takmarkað framboð Tinnabókanna. Rannsakendur eða kennarar geta þó enn fengið aðgang að bókinni í rannsóknartilgangi.

Bókasafnið í Åmal í vesturhluta Svíþjóðar hefur þó ákveðið að fara aðra leið. Safnið auglýsir bækurnar í þeim tilgangi að hvetja til umræðna um menningu og lýðræði.

„Okkur finnst að fólk eigi að líta á bækurnar sem heimild um aðra tíma og að okkur beri að reyna að læra af þeim í sögulegu samhengi. Þetta vandamál er í raun af sama meiði og með Línu langsokk,“ segir Annika Andersson í samtali við Aftonbladet, en sumir hafa bent á undirtón kynþáttahyggju í bókum Astridar Lindgren um Línu.

„Að fjarlægja efni eða ritskoða það er ótrúlega ólýðræðislegt og ljótt,“ segir Annika. 

Tinnabækurnar voru skrifaðar af hinum belgíska Georges Remi á árunum 1930-1976. Þær hafa verið þýddar á meira en 50 tungumálum.

Frá þessu er sagt í The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert