Tyrkir gera árásir á sýrlensk skotmörk

Íbúar í tyrkneska landamærabænum Akcakale skoða rústir húss sem sýrlenskar …
Íbúar í tyrkneska landamærabænum Akcakale skoða rústir húss sem sýrlenskar sprengjukúlur hæfðu. AFP

Tyrkir hafa hafið árásir á sýrlensk skotmörk á ný eftir að tvær konur og þrjú börn létust eftir að hafa orðið fyrir sprengikúlum sem var skotið frá Sýrlandi í gær.

Nokkrir sýrlenskir hermenn féllu í skotárásum tyrkneska hersins. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins sem hefur upplýsingar eftir sýrlenskum aðgerðahópi.

Stjórnvöld í Sýrlandi segjast vera að rannsaka árásina sem var gerð á tyrkneska bæinn Akcakele sem er við landamæri ríkjanna.

Fram kemur á vef BBC, að tyrkneska þingið ræði nú hvort flytja eigi hermenn yfir landamærin til Sýrlands. Haft er eftir heimildarmönnum innan tyrknesku ríkisstjórnarinnar að Tyrkir hafi ekki í hyggju að lýsa yfir stríði gegn Sýrlandi.

Haft er eftir embættismanni að sýrlensk yfirvöld eigi að líta á árásirnar, sem hófust í gær, sem viðvörun.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman í dag, en Tyrkir hafa óskað eftir því að ráðið grípi til viðeigandi aðgerða til að stöðva árásir sýrlenska stjórnarhersins.

Ógnar öryggi og friði í heiminum

Frönsk stjórnvöld sögðu í dag að árás sýrlenska hersins á Tyrkland í gær ógni öryggi og friði í heiminum. Þau krefjast þess að árásunum verði hætt þegar í stað.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, segir í yfirlýsingu að árásin hafi brotið gegn alþjóðalögum og ógni öryggi heimsins og friði með alvarlegum hætti.

„Alþjóðasamfélagið getur ekki sætt sig við það að sýrlensk stjórnvöld haldi áfram slíkum ofbeldisverkum í sínu eigin landi og út fyrir landamæri sín,“ segir ráðherrann.

Tyrkneski herinn er við öllu búinn.
Tyrkneski herinn er við öllu búinn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert