Norðurkóresk sendinefnd í Svíþjóð

Kim Jong-Un ásamt háttsettum ráðamönnum í gróðurhúsi í Norður-Kóreu. Heimsókn …
Kim Jong-Un ásamt háttsettum ráðamönnum í gróðurhúsi í Norður-Kóreu. Heimsókn sendinefndar til Svíþjóðar þykir gefa til kynna að Jong-Un ætli að markaðsvæða landið. KNS


Sendinefnd frá Norður-Kóreu er stödd í Svíþjóð þar sem hún heimsækir fyrirtæki, banka og ríkisstofnanir til þess að læra um rekstur þeirra.

Samkvæmt sænska ríkisútvarpinu koma norðurkóresku fulltrúarnir frá háskólum, útflutningsfyrirtækjum og úr utanríkisráðuneytinu þar í landi. Þeir eru í Svíþjóð í boði Alþjóðaráðs sænska iðnaðarins. Alls eru 25 manns í sendinefndinni.

Stjórnmálasamband Svíþjóðar og Norður-Kóreu nær til ársins 1975 þegar Svíar opnuðu sendiráð í Pyongyang. Svíar voru jafnframt fyrsta vestræna þjóðin til að koma á diplómatískum samskiptum við Norður-Kóreubúa.

Nokkur leynd hefur verið yfir ferðum norðurkóresku sendinefndarinnar. Sænska utanríkisráðuneytið neitaði að tjá sig um dvöl þeirra við AFP fréttstofuna. Óljóst er hvort ráðuneytið hefur vitað af því að von væri á sendinefndinni.

Heimsóknin þykir sæta tíðinda þar sem Norður-Kórea er eitt einangraðasta land í heimi og fáheyrt er að fulltrúar landsins heimsæki vestrænt ríki.

Fjölmiðlar í Suður-Kóreu hafa fylgst náið með málinu og segja heimsóknina til marks um að Kim Jong-Un vilji markaðsvæða í Norður-Kóreu. Kim Jong-Un tók við embætti af föður sínum í Kim Jong Il í desember á síðasta ári.

Björn Berggren hjá KTH-háskólanum í Svíþjóð var falið að fylgja nefndinni eftir. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig við fjölmiðla. „Mér er bannað að gera það,“ sagði Berggren í samtali við sænska ríkisútvarpið.  

Benny Olsson, heildsali með grænmeti, hitti nefndina einnig. „Þeir spurðu milljón spurninga, t.a.m hversu há meðallaunin eru og hversu mikil afskipti stjórnvalda eru,“ segir Olsson.   

„Þeir spurðu hvort stjórnvöld segðu til um hámarkslaun starfsmanna í fyrirtækjum. Þeir þráspurðu mig að þessu sama. Þeir koma frá algjörlega ólíkum aðstæðum, þeir skilja okkar heim ekki og ég skil ekki þeirra.“

„Ég veit ekki hver störf þeirra eru, það eina sem ég veit er að þeir eru háttsettir hagfræðingar frá Norður-Kóreu,“ segir Olsson.

Johan Alvin hjá Alþjóðaráði sænska iðnaðarins skipulagði heimsóknina. „Við styðjum ósk þeirra um að læra af hagkerfi okkar,“ segir Alvin.

Samkvæmt sænska útvarpinu var för sendinefndarinnar að hluta til fjármögnuð af þróunarnefnd sem rekin er af sænska ríkinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert