Obama segir ekki hægt að snúa við núna

Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnaði í dag nýjum atvinnuleysistölum, sem sýna að staðan er betri en nokkru sinni síðan hann tók við embætti. Obama sagði þetta til marks um að Bandaríkin hefðu „náð of miklum árangri til að snúa við núna“. Andstæðingur hans Mitt Romney brást hins vegar við með því að segja að tölurnar tákni ekki „raunverulegan bata“.

Samkvæmt nýjustu tölum hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum minnkað niður í 7,8 prósent og hefur ekki verið minna síðan Obama tók við embætti fyrir tæpum 4 árum. Atvinnuástandið hefur verið meðal helstu útgangspunkta repúblikana, sem hafa gagnrýnt Obama í kosningabaráttunni fyrir að hafa ekki gert nóg til að skapa ný störf á kjörtímabilinu.

Segir Romney tala niður efnahagslífið

Eftir kappræðurnar á miðvikudag dró aðeins úr forskoti Obama enda þótti hann ekki standa sig vel. Demókratar vonast til þess að þessi tíðindi skjóti honum fram á við að nýju. Obama hélt fund með stuðningsmönnum sínum í Virginíu í dag, en það er eitt af óvissuríkjunum þar sem úrslitin gætu farið á hvorn veg sem er.

„Í dag trúi ég því að við sem þjóð færumst fram á við á ný,“ sagði Obama. „Eftir að hafa misst 800.000 störf á mánuði þegar ég tók við embætti hefur viðskiptalífið nú bætt við sig 5,2 milljónum nýrra starfa á undanförnum tveimur og hálfu ári.“ Obama gagnrýndi Romney fyrir að tala niður efnahagslífið til að skora pólitísk stig og sagði árangurinn of góðan til að snúa aftur til þeirrar stefnu sem hefði leitt til kreppunnar í upphafi. 

Tölurnar endurspegli ekki raunveruleikann

Romney var einnig staddur í Virginíu í dag, enda keppast forsetaframbjóðendurnir við að hitta sem flesta í lykilríkjunum og leiðir þeirra liggja því oft saman. Hann sagði atvinnuleysistölurnar ekki endurspegla raunveruleikann. „Ef ekki væri fyrir alla þá sem hafa hreinlega dottið út af vinnumarkaði, þá væri talan nær því að vera 11%,“ sagði Romney í dag. 

Romney kann að hafa rétt fyrir sér því sérfræðingar hafa bent á að atvinnuleysistölurnar einar og staðfesti ekki að  efnahagslífið sé að taka við sér. Engu að síður getur Obama án vafa túlkað tölurnar sér í vil þær 4 vikur sem eftir eru fram til kosninganna, því hann setti sér það markmið að ná atvinnuleysi niður fyrir 8% á kjörtímabilinu og mátti ekki tæpara standa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert