„Við verðum hópurinn sem tekur Osama úr umferð“

Osama Bin Laden
Osama Bin Laden AFP

Mynd um áhlaup bandarískrar hersveitar á heimili Osama Bin Laden í Pakistan verður frumsýnd tveimur dögum fyrir bandarísku forsetakosningarnar sem fram fara 6. nóvember.

Barack Obama gaf grænt ljós á að hópur hermanna úr sjóhernum myndi fara að felustað Bin Ladens í Pakistan í maí árið 2011. Bin Laden lést í átökum við hermennina.

Framleiðandi myndarinnar er Harvey Weinstein en hann er þekktur fyrir stuðning sinn við Demókrataflokkinn. Hann hélt meðal annars fjáröflunarsamkomu til styrktar Obama í síðasta mánuði.

Myndinni er leikstýrt af John Stockwell. Í sýnishorni myndarinnar má m.a. heyra persónur hennar segja „Við verðum hópurinn sem tekur Osama úr umferð“ og „embættistíð forsetans mun ráðast af þessari ákvörðun“.

„Ég býst við því að áhorfendur verði, frá upphafi til enda, jafn hugfangnir og ég var þegar ég sá myndina.“ segir Weinstein á fréttamannafundi í dag.

„Ég er afskaplega stoltur, sem bandarískur þegn, að eiga hlut í því að sýna heimilum landsins svo mikilvægan atburð í bandarískri sögu,“ segir Weinstein.  

Weinstein hefur m.a. framleitt myndir eins og The English Patient, The Artist og nýjustu Rambo-myndina.

Á fjáröflunarsamkomu hans til stuðnings Obama í Connecticut í ágúst kostaði hver miði um 38.500 dollara. 50 gestir mættu og voru margir þeirra þekkt andlit úr Hollywood. 

Harvey Weinstein er hér ásamt leikkonunni Jennifer Garner.
Harvey Weinstein er hér ásamt leikkonunni Jennifer Garner. Stephen Lovekin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert