11 karlmenn voru teknir af lífi í Írak í dag, þrátt fyrir harða gagnrýni á fyrirætlanirnar. Þetta þýðir að dauðarefsing hefur verið látin fram ganga a.m.k. 113 sinnum í Írak það sem af er þessu ári.
Mennirnir sem aflífaðir voru í dag voru 10 Írakar og einn Alsíringur, að því er BBC hefur eftir dómsmálaráðuneyti Íraks. Mennirnir voru allir sakfelldir fyrir að tengjast hryðjuverkum.
Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, lýsir ástandinu í dómsmálum Íraks sem skelfilegu. Mikill vafi sé á því hvort fangar fái réttlátar málsmeðferðir og vísbendingar séu um þvingaðar játningar.
Baráttufólk fyrir mannréttindum innan SÞ og Evrópusambandsins, auk Amnesty International, hafa gagnrýnt mikinn fjölda dauðarefsinga í Írak. Engin dæmi eru um að fangar á dauðadeild séu náðaðir.
Aftökur voru aflagðar í eitt ár í Írak eftir fall Saddams Hussein árið 2003, en stjórnvöld í landinu tóku dauðarefsinguna fljótt upp aftur og segja það nauðsynlegt vegna fjölda skæruliðaárása. Talið er að undanfarin 8 ár hafi 1.200 fangar verið teknir af lífi í Írak.