Tóbakssölumenn settu upp vegtálma

Tóbakssölumenn í Frakklandi settu upp vegtálma.
Tóbakssölumenn í Frakklandi settu upp vegtálma. RAYMOND ROIG

Um eitt hundrað franskir tóbakssölumenn lokuðu leið að spænsku landamærunum í bænum Perthus í suðvesturhluta Frakklands til að mótmæla verðhækkun á tóbaki.

Mótmælendurnir settu upp vegtálma og stöðvuðu umferð á um fjögurra kílómetra vegkafla að landamærunum.

Frönsk yfirvöld tilkynntu í síðustu viku að þau hygðust hækka skatta á tóbaksvörum sem munu fyrir vikið  hækka um 6,5-10%. Tóbakssölumennirnir segja að með þessu muni margir þeirra missa rekstur sinn.

Tóbakssölumennirnir settu upp vegtálma til að vekja athygli á því að áætlað er að um 15 þúsund karton af ódýrari sígarettum sé smyglað inn til Frakklands frá Spáni um hverja helgi. Algengt er að Frakkar geri sér ferð yfir landamærin um helgar til þess að gera ódýr innkaup.

Sígarettupakki kostar á Spáni um 4,25 evrur (675 kr.) en sami pakki kostar nú 6,1 evru (969 kr.) í Frakklandi. Auknum tóbakssköttum er ekki einungis ætlað að hvetja Frakka til betri heilsu. Jafnframt er ætlunin að auknar álögur muni hjálpa til með að stoppa upp í 37 milljarða evra gat í fjárlögum.

Franskir tóbakssölumenn koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Franskir tóbakssölumenn koma sjónarmiðum sínum á framfæri. RAYMOND ROIG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert