Í lífshættu eftir kokteildrykkju

Fjarlægja þurfti maga ungrar breskrar stúlku eftir að hún hafði drukkið kokteil sem innihélt fljótandi köfnunarefni. Var stúlkan hætt komin og í lífshættu þegar komið var með hana á sjúkrahús, samkvæmt frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

Gaby Scanlo, 18 ára, átti erfitt með öndun eftir að hafa drukkið kokteilinn á skemmtistað í Lancaster á fimmtudagskvöldið. Þegar hún fékk heiftarlega kviðverki var farið með hana á bráðamóttökuna um ellefu leytið um kvöldið.

Læknar sáu að rifa hafði myndast á maga hennar og neyddust þeir til þess að skera hana upp með hraði og fjarlægja líffærið, að sögn lögreglu. Stúlkan er enn á sjúkrahúsi og er líðan hennar stöðug. Hún er ekki lengur í lífshættu.

Samkvæmt frétt Sky er lögregla að ræða við gesti á staðnum og hefur staðnum verið bannað að selja drykki sem innihalda köfnunarefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert