Romney sækir í sig veðrið

Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum sagðist í dag heita því að hann myndi ekki sýna Vladimír Pútín, forseta Rússlands, neina linkind varðandi eldflaugavarnaráætlanir Rússa. 

„Ég mun koma á öflugum vörnum til varnar þeim ógnum sem að okkur steðja. Og Pútín verður enginn sveigjanleiki sýndur,“ sagði Romney á kosningafundi í Virginíuríki í dag.

Leikar teknir að æsast

Nú eru fjórar vikur til kosninga og leikar farnir að æsast nokkuð, ekki síst eftir kappræður forsetaframbjóðendanna tveggja síðastliðinn miðvikudag, þar sem Romney er af mörgum talinn hafa sýnt nokkra yfirburði. Nýjustu skoðanakannanir sýna að Obama hefur tapað nokkru fylgi undanfarna daga og er það rakið til kappræðnanna.

Hann mælist þó enn með nokkuð meira fylgi; 49%, en fylgi Romneys mælist nú 46%.

Segir Obama hafa brugðist í Mið-Austurlöndum

Mikið hefur verið rætt um utanríkismál að undanförnu. Romney segir Obama hafa brugðist þeim væntingum sem gerðar hafi verið til hans um að taka forystu í að leysa vandann í Sýrlandi. Hann segir aðgerðaleysi forsetans hafa aukið hættuna á óstöðugleika í Mið-Austurlöndum. 

„Forsetinn hefur brugðist í að taka forystu varðandi málefni Sýrlands, þar sem meira en 30.000 karlar, konur og börn hafa verið myrt af stjórn Assads á undanförnum 20 mánuðum,“ sagði Romney á fundinum í Virginíuríki. Romney sagði ennfremur að samskiptin við Ísrael, helsta bandamann Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, hefðu versnað í forsetatíð Obama. Upp væri komin „hættuleg staða“ sem hefði gert það að verkum að Íranar sæktu nú í sig veðrið.

Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins og fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts.
Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins og fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts. AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert