Skotinn 14 sinnum með rafbyssu

Taser-byssa.
Taser-byssa.

Rannsókn á dauða brasilísks námsmanns í Sydney í Ástralíu í mars hefur leitt í ljós að lögregla skaut hann að minnsta kosti 14 sinnum með Taser-rafbyssu áður en hann lést.

Roberto Laudisio Curti, 21 árs, hafði neytt eiturlyfsins LSD ásamt tveimur félögum sínum nokkrum klukkustundum áður og var hegðun hans óeðlileg fyrir framan lögreglu en lögregla var á eftir honum fyrir að hafa stolið tveimur kexpökkum í verslun í miðborg Sydney. Curti var óvopnaður en veitti mikla mótspyrnu þegar lögregla reyndi að handtaka hann. Beittu þeir piparúða, kylfum og fleiri úrræðum áður en þeir tóku upp rafbyssur. Skömmu síðar lá Curti látinn í götunni, samkvæmt því sem fram kom í skýrslu sem birt var í dag.

Næstu daga á eftir reyndi lögregla að verja þá ákvörðun að hafa beitt rafstuðbyssum en mikil reiði greip um sig meðal fjölskyldu piltsins í Brasilíu og krafði hún lögreglu svara um lát hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert