Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) segir að hungraðir í heiminum séu færri en áður hafi verið talið. Hins vegar sé ljóst að það sé algjörlega óviðunandi að 870 milljónir jarðarbúa glími við hungur. Þá segir FAO að dregið hafi úr baráttunni gegn hungursneyð í heiminum.
„Næstum því 870 milljónir þjást af stöðugri vannæringu árin 2011-2012; það er óviðunandi hversu margir í heiminum eru hungraðir,“ segir í nýrri skýrslu stofnunarinnar um fæðuöryggi.
Bent er á að einn af hverjum átta jarðarbúum glími við hungursneyð.
Jose Graziano da Silva, yfirmaður stofnunarinnar, segir það algjörlega óviðunandi að í dag séu yfir 100 milljón börn, sem eru yngri en fimm ára, undir kjörþyngd.