Afrit af handskrifaðri dagbók hins argentínska Che Guevara, sem öðlaðist heimsfrægð í byltingunni á Kúbu, hefur verið sett á netið. Che Guevara hélt dagbók allt þar til hann lést í fjöllum Bólivíu.
Carlos Soria Galvarro, sem hefur rannsakað ævi Che Guevara, segir að sögufræg gögn sem þessi eigi að vera öllum aðgengileg. Netið geri slíkt mögulegt, að sjá hvað gerðist fyrir 45 árum.
Soria Galvarro birtir dagbókina á vef sínum en hún var skrifuð með bláu bleki frá janúar til október 1967 en hann var myrtur þann 8. október 1967 af bólivískum hermönnum.
Dagbók Guevara var gefin út á Kúbu árið 1968 en þar var textanum breytt lítillega þar sem málfar hans þótti ekki nægjanlega gott.