Átök á hörpuskelsmiðum í Ermarsundi

Frá fiskihöfninni í Le Havre í Frakklandi.
Frá fiskihöfninni í Le Havre í Frakklandi.

Breskir embættismenn áttu í viðræðum við franska starfsbræður sína í dag vegna átaka á hörpuskelsmiðum undan frönsku hafnarborginni Le Havre í gær. 

Fimm breskir bátar voru að toga eftir hörpuskel í Signubugt er um 40 franskir bátar birtust og hófu að erta Bretana. Hefur The Times eftir einum bresku skipstjóranna, að þeir hafi legið undir grjótkasti frá nokkrum frönsku bátanna, aðrir hafi siglt ógnandi upp að þeim á mikilli ferð og skotið blysum að bresku bátunum.

Franska strandgæslan sendi skip á vettvang og skakkaði það leikinn. Engan sakaði í sjóorrustu þessari.

Embættismenn í London segja að viðræður séu í gangi við frönsk yfirvöld um tryggingar fyrir því að atburðir af þessu tagi endurtaki sig ekki. Óljóst er hvers vegna til átakanna kom en breskir sjómenn hafa heimildir til að veiða hörpuskel á svæði undan Frakklandsströndum. Talið er að það hafi hleypt kergju í frönsku sjómennina, að Bretar mega veiða á þessu franska hafsvæði allt árið en þeir sjálfir einungis fimm mánuði á ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert