Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, bað predikaranna víðfræga Billy Graham um að biðja fyrir sér fram að kosningunum 6. nóvember. Graham, sem er 93 ára gamall, sagðist reiðubúinn til að gera allt sem í hans valdi stæði til að hjálpa Romney.
Romney hitti Graham og son hans á landareign þeirra feðga í Norður Karólínuríki í dag þar sem frambjóðandinn hélt síðan kosningafund. Tengsl við Graham gætu skipt gríðarmiklu máli fyrir fylgi Romney, því að Graham nýtur mikillar virðingar meðal kristinna Bandaríkjamanna og víða um heim.
Graham spurði Romney hvað hann gæti gert fyrir hann. „Bænin er það sem myndi hjálpa mér mest,“ svaraði Romney.
Allir Bandaríkjaforsetar frá og með Harry Truman hafa boðið Graham í Hvíta húsið. George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna segir að það sé Graham að þakka að hann hætti að drekka áfengi þegar hann var um fertugt.