Pils verði klæði beggja kynja jafnt

Frá aðgerðum pilskarla í Rennes.
Frá aðgerðum pilskarla í Rennes. mbl.is/rennes.maville.com

Samtök franskra karla sem geðjast að klæðast pilsi hafa efnt til kröfugöngu í Rennes, höfuðstað Bretaníuskagans, til að berjast fyrir því að litið verði á pils sem klæðnað beggja kynja að jöfnu.

Samtökin „pilsakarlar“, Hommes en Jupe, voru stofnuð árið 2007. Gengu liðsmenn þeirra um miðborg Rennes í gær og deildu út bleðlingum um baráttu sína og hvöttu vegfarendur til að taka undir kröfur sínar um að pils verði viðurkennd sem karlaflíkur jafnt sem kvenna.

„Við viljum að karlar prófi að klæðast pilsi. Í sögunni klæddust karlar ýmissa  menningarheima pilsi,“ sagði talsmaður samtakanna, Jeremie Lefebvre, við frönsku sjónvarpsstöðina France 3.

„Við ætlum að berjast gegn þeirri viðteknu klisju, að pils séu bara fyrir konur. Fólk ætti að bera virðingu fyrir karli sem vill klæðast pilsi. Draumur okkar er að sá dagur komi að verslanir bjóði upp á pils fyrir karla fordómalaust,“ sagði Lefebvre.

Nýlega stóðu samtökin að baki sýningu um karlapils í bænum Ambazac í Limousin-héraði. Auk gesta víðs vegar að úr Frakklandi dró hún að sér gesti allt frá Belgíu og Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert