Einungis einn af hverjum fjórum Norðmönnum er samþykkur veitingu Friðarverðlauna Nóbels til Evrópusambandsins. Þetta sýnir könnun, sem gerð var á vegum norska dagblaðsins Aftenposten í dag.
800 voru í úrtakinu. 26% þeirra sem svöruðu sögðu það vera jákvætt að ESB hefði hlotið verðlaunin, 37% sögðu það vera neikvætt og 37% sögðust ekki hafa neina skoðun á þessari verðlaunaveitingu.
Geir Lundested, framkvæmdastjóri Nóbelsstofnunarinnar, segir þessa niðurstöðu jákvæðari en hann bjóst við. „Niðurstöðurnar endurspegla ástand mála í Noregi, þar sem neikvætt viðhorf til ESB er ríkjandi. En þessi verðlaun snúast ekki um aðild Noregs að ESB, Nóbelsstofnunin hefur víða og alþjóðlega skírskotun,“ segir Lundested í samtali við Aftenposten.
Frank Aarebrot, prófessor í evrópskum stjórnmálum við háskólann í Bergen, segir að skoðanakönnunin hafi verið lögð fyrir allt of fljót. Hann segir í samtali við Aftenposten að Norðmenn hafi ekki fengið ráðrúm til að átta sig á því að verið er að verðlauna ESB fyrir starf sitt að friði í heiminum, viðhorf fólks til ESB-aðildar komi málinu ekkert við.
„Hefði skoðanakönnunin verið gerð á morgun, þá er ég viss um að niðurstaðan hefði verið allt önnur. Þegar verðlaunin voru kunngjörð sendi NRK (Norska ríkissjónvarpið) beint út frá höfuðstöðvum samtaka Evrópusinna og frá samtökunum „Nei til EU“ (Samtök andstæðinga ESB-aðildar),“ segir Aarebrot.
Í könnuninni var líka spurt um viðhorf fólks til ESB-aðildar. 70% svöruðu því til að þeir teldu að Noregur ætti ekki að ganga í Evrópusambandið, 20% eru fylgjandi ESB-aðild og 10% voru óákveðin.