Verðlaunin breyta ekki afstöðu Norðmanna

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

„Það er mögulegt að óska Evrópusambandinu til hamingju með friðarverðlaunin þetta árið og viðurkenna hlutverk sambandsins í því að viðhalda friði en um leið skilja það frá spurningunni um samband þess og Noregs,“ sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, við fréttamenn eftir að tilkynnt var í gær að Evrópusambandið hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels í ár.

„Þessi friðarverðlaun breyta engu um stöðuna í sambandi Noregs og Evrópusambandsins,“ sagði hann ennfremur og lagði áherslu á að aðild að sambandinu væri ekki á dagskrá í Noregi samkvæmt fréttavefnum Thelocal.no.

Fram kemur í fréttinni að Evrópusambandið sé mjög umdeilt í Noregi enda hafi norskir kjósendur tvisvar hafnað aðild að sambandinu í þjóðaratkvæði, fyrst 1972 og síðan 1994. Þá séu yfir 70% Norðmanna andvíg aðild samkvæmt síðustu skoðanakönnunum.

Engu að síður sé flokkur Stoltenbergs, Verkamannaflokkurinn, hlynntur aðild að Evrópusambandinu en búi við þá stöðu að vera í samsteypustjórn með tveimur flokkum sem hafna þeirri hugmynd að Noregur ætti að ganga í sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert