Sex af tíu stærstu vopnaútflytjendum heims eru í Evrópusambandinu. Lönd sambandsins flytja samtals út 32% allra vopna sem seld eru úr landi í heiminum.
Þýskaland, Frakkland, Bretland, Spánn, Holland og Ítalía eru stærstu vopnaútflytjendur heims, samkvæmt frétt Aftenposten í dag. Þar segir að þar sem útgjöld ESB-landanna til hernaðar hafi dregist saman á undanförnum árum, treysti þessi lönd meira á aðra markaði og að framleiðslan sé notuð í stríði og átökum víða um heim.
Í þessu ljósi skjóti það skökku við að veita sambandinu Friðarverðlaun Nóbels, að mati Alexanders Harang, sem er í forsvari fyrir friðarsamtökin Norges Fredslag.
„Þetta snýst ekki um að vera með eða á móti ESB. Heldur að átta sig á þeirri þróun sem hefur verið í sambandinu á undanförnum árum; þessi áhersla á framleiðslu og útflutning vopna,“ segir Harang í samtali við Aftenposten.