Sænskir mjólkurvöruframleiðendur eru áhyggjufullir vegna fyrirætlana norsku ríkisstjórnarinnar um að hækka innflutningstolla á mjólkurvörur inn í landið.
„Þetta nýja kerfi gerir það að verkum að útflutningur á sænskum ostum til Noregs er úr sögunni,“ segir Fredrik von Unge hjá samtökunum Svensk Mjölk í samtali við TT fréttastofuna í Svíþjóð.
Norsk stjórnvöld hyggjast hækka tolla umtalsvert. Sérstaklega mun það koma niður á sænskum ostaframleiðendum en samkvæmt áætlunum mun tollahækkunin leiða til þess að 27 norskar krónur (583 ísl kr.) verða settar á hvert oststykki óháð verði.
Tollahækkanirnar munu ganga í gildi árið árið 2013 en einnig er stefnt að því að hækka innflutningstolla á lamba- og nautakjöt.
Norsku bændasamtökin fagna tilkomu tollanna og segja þá munu koma til með að styrkja iðnaðinn til muna.
Svíar eru stærstu útflytjendur matvöru til Noregs.