Bandarískt beitiskip rakst á kjarnorkukafbát undan austurströnd Bandaríkjanna í gær á meðan á heræfingum stóð. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ekki hafi verið um alvarlegan árekstur að ræða en talið sé að ratsjárbúnaður beitiskipsins hafi skemmst.
Þá kemur ennfremur fram í fréttinni að engum hafi orðið meint af árekstrinum og gátu bæði skipin áfram siglt af eigin vélarafli eftir hann.
Haft var eftir talsmanni bandaríska sjóhersins að slíkir árekstrar væru fremur sjaldgæfir en málið færi sína leið og væri rannsókn á því þegar hafin.
Vaktmenn á beitiskipinu munu hafa orðið varir við að sjónpípa kom upp úr sjónum skammt fyrir framan skipið. Gefin var fyrirskipun um að sigla skipinu aftur á bak en það hefði reynst of seint.
Fram kemur í fréttinni að bandaríski sjóherinn hafi upplýst að um hafi verið að ræða beitiskipið USS San Jacinto og kjarnorkukafbátinn USS Montpelier.