Obama undirbýr sig af kappi

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, svarar í síma í einni af …
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, svarar í síma í einni af kosningamiðstöðvum sínum. AFP

Stuðningsmenn Baracks Obama Bandaríkjaforseta segja að hann muni mæta tvíefldur til leiks til kappræðna þeirra Mitts Romneys sem fara fram í New York á þriðjudaginn, 16. október. Þetta verður önnur viðureign þeirra af þremur, en Obama þótti fara halloka í fyrstu kappræðunum 4. október.

Obama undirbýr sig nú af kappi og dvaldi á hóteli á golfvelli í Virginíuríki yfir helgina. Hann æfði sig og lék öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry, sem bauð sig fram til forseta gegn George W. Bush árið 2004, andstæðing hans.

Er sinn harðasti gagnrýnandi

David Axelrod, kosningastjóri Obama, segir að forsetinn hafi horft gaumgæfilega á upptökur af fyrstu kappræðum sínum við Romney.

Mörgum þótti Obama þar vera annars hugar, án alls eldmóðs og hann virtist forðast að horfa beint á Romney. „Enginn er gagnrýnni á forsetann en forsetinn sjálfur,“ sagði Axelrod í viðtali við Fox News sjónvarpsstöðina.

Romney varði helginni í undirbúning

Romney hefur einnig varið helginni í undirbúning. Hann sótti messu í mormónakirkju í morgun og síðan tóku við stífar æfingar fyrir kappræðurnar. Rob Portman, öldungadeildarþingmaður frá Ohio, lék hlutverk Obama.

Síðustu kappræður þeirra Romneys og Obama verða síðan í Flórídaríki hinn 22. október. Kosið verður 6. nóvember.

Mitt Romney á kosningafundi í Ohio.
Mitt Romney á kosningafundi í Ohio. AFP
Obama meðal stuðningsmanna sinna.
Obama meðal stuðningsmanna sinna. AFP
Einn af stuðningsmönnum Mitts Romneys, forsetaefnis Repúblikanaflokksins.
Einn af stuðningsmönnum Mitts Romneys, forsetaefnis Repúblikanaflokksins. AFP
Sölubás sem selur varning til styrktar framboði Baracks Obama.
Sölubás sem selur varning til styrktar framboði Baracks Obama. AFP
Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins, í ræðustól.
Mitt Romney, forsetaefni Repúblikanaflokksins, í ræðustól. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert