Spennan í samskiptum Tyrkja og Sýrlendinga fer stigvaxandi. Sýrlendingar bönnuðu í gærkvöldi alla umferð tyrkneskra flugvéla í lofthelgi sinni og Tyrkir svöruðu í sömu mynt og hafa bannað allt farþegaflug sýrlenskra flugvéla yfir Tyrklandi. Áður höfðu þeir bannað umferð sýrlenskra herflugvéla.
„Í gær lokuðum við lofthelgi okkar fyrir sýrlenskum farþegaflugvélum á sama hátt og við höfðum gert varðandi herflugvélar þeirra,“ sagði Ahmet Davutoglu, utanríkisráðherra Tyrklands í dag. „Þar sem við komumst að því að varnarmálaráðuneyti Sýrland notaði farþegaflugvélar til að flytja hergögn, þá sendum við skilaboð þessa efnis í gær til sýrlenskra yfirvalda.“
Tyrkir hafa hafnað tilmælum frá Rússum um að hefja viðræður við Sýrlendinga og segja að fyrst verði sýrlensk stjórnvöld að leysa sín innanríkismál.
Tyrkir gerðu sýrlenskri farþegavél, sem var á leið frá Moskvu í Rússlandi til Damaskus í Sýrlandi, að lenda síðastliðinn miðvikudag. Forsætisráðherra Tyrklands segir að um borð í vélinni hafi verið vopn og skotfæri, auk fjarskiptatækja og segir að vopnin hafi komið frá rússneskum hergagnasala og verið ætluð sýrlenska stjórnarhernum. Þessu neita bæði sýrlensk og rússnesk yfirvöld.
Nú saka sýrlensk stjórnvöld Tyrki um að koma vopnum frá Arabalöndunum til uppreisnarmanna.
Þann 3. október létust fimm Tyrkir er þeir urðu fyrir sprengjum sem varpað var frá Sýrlandi yfir landamærin að Tyrklandi. Síðan þá hafa verið nokkur átök við landamærin og hafa Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélagið af því vaxandi áhyggjur.
Þá hefur spennan náð til nágrannaríkisins Líbanons, þar sem hundruð stuðningsmanna Bashar al-Assads Sýrlandsforseta héldu fund í höfuðborginni Beirút í dag þar sem Rússum og Kínverjum var þakkað fyrir að styðja við stjórn Assads. Fólkið bar spjöld sem á stóð: „Takk Rússland!“ og „Líbanon styður Sýrland Assads að eilífu“.
Á sama tíma var haldinn fjöldafundur í borginni þar sem fjölmenni lýsti yfir stuðningi við uppreisnarmenn í Sýrlandi. Fólkið veifaði fánum uppreisnarmanna.
Hezbollah samtökin í Líbanon hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Assads. Hassan Nasrallah, leiðtogi samtakanna, sagði fyrir nokkrum dögum að engin ákvörðun hefði verið tekin af hálfu samtakanna að taka þátt í átökunum í Sýrlandi, en að sumir líbanskir ríkisborgarar, sem séu búsettir í Sýrlandi, hafi slegist í hóp með stjórnarhernum.
Líbanon var undir stjórn Sýrlands í þrjá áratugi og sterk tengsl eru á milli landanna tveggja.