Flugmaður sem lenti flugvél á röngum farþegaflugvelli í Indónesíu hefur verið rekinn úr starfi og rannsókn er hafi á því hvernig svona mistök gátu átt sér stað. 96 farþegar voru í flugvélinni.
Flugvélin tók á loft frá flugvellinum í Medan sem er á eyjunni Súmötru. Förinni var heitið til Padang. Flugvélin lenti hins vegar á herflugvelli í Tabing sem er um 12 kílómetrum frá Padang.
Ekki er vitað hvers vegna flugmaðurinn lenti ekki á réttum flugvelli. Hins vegar er vitað að hann var í sambandi við flugumferðarstjóra í Padang áður en hann lenti.
Lendingin gekk vel og amaði ekkert að farþegunum, fyrir utan það að þeir voru ekki á réttum flugvelli.