Þýska vikuritið Der Spiegel tók viðtal við einn meðlima rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy riot, Yekaterina Samutsevich. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi í Rússlandi.
Í viðtalinu segir Samutsevich að réttahöldin yfir henni og öðrum meðlimum hljómsveitarinnar hafi verið farsi. Telur hún Vladimír Pútín hafa ákveðið niðurstöðu dómsins. Hinir tveir meðlimir Pussy Riot, þær Maria Alyokhina og Tolokonnikova Nadezhda, voru dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir að valda óspektum í kirkju þegar þær mótmæltu einræðistilburðum Pútíns.
Aðspurð hvort það hafi verið mistök að velja kirkju sem stað til þess að koma mótmælum sínum á framfæri telur Samutsevich svo ekki vera. „Við vildum vekja athygli á tengslum kirkjunnar við Pútín,“ segir Samutsevich.
Hún viðurkennir að þær gætu hafa misboðið trúuðu fólki með því að velja kapellu sem stað til mótmæla. Ætlunin hafi hins vegar ekki að ráðast gegn trúarbrögðum. „En við frömdum engan glæp þó við höfum gert það þar,“ segir Samutsevich.
Hún segir að hljómsveitin muni ekki þiggja boð frá útlöndum um að koma og spila tónlist sína eftir að fangelsisvist Alyokhina og Nadezhda lýkur. Þær sækist ekki eftir peningum og ætlunin sé að halda baráttunni gegn Pútín áfram. „Barátta okkar er í Rússlandi. Við berjumst ekki gegn Pútín frá öðrum löndum. Refsing okkar sýnir að okkur er að við erum á réttri leið,“ segir Samutsevich.
Hún segir að þrátt fyrir að hótanir hafi beinst gegn þeim úr samfélaginu óttist hún ekki ofbeldi í þeirra garð. „Ég fer með neðanjarðarlestinni eins og ég hef alltaf gert,“ segir Samutsevich.