Yfirvöld í höfuðborg Mongólíu hafa fjarlægt síðustu styttuna af Lenín, ein síðustu ummerki um bandalag landsins við Sovétríkin sálugu. Borgastjóri Ulan Bator, Bat-Uul Erdene, sagði Lenín hafa verið morðingja en síðasta styttan af sovéska leiðtoganum var fjarlægð í gær. Hópur fólks fylgdist með er styttan var tekin niður af stalli sínum og sett á vöruflutningabíl og grýttu margir gömlum skóm í styttuna.
Mongólía sleit sambandi við Sovétríkin árið 1990 án þess að til nokkurs ofbeldis eða átaka kæmi.
„Um 100 milljónir manna voru drepnar á valdatíma kommúnistanna, fleiri en létust í síðari heimsstyrjöldinni,“ sagði Bat-Uul sem er harður andstæðingur kommúnismans. „Og sá sem hóf þetta allt saman var Lenín.“