Valdaskipti standa fyrir dyrum í Kína. 8. nóvember, tveimur dögum eftir að Bandaríkjamenn kjósa sér forseta, kemur kínverski kommúnistaflokkurinn saman til að velja nýja forustu. Valdabaráttan í Kína fer hins vegar ekki fram fyrir opnum tjöldum, heldur fyrir luktum dyrum.
Ljóst þykir hver verði valdamesti maður landsins. Xi Jinping varaforseti þykir raunsær og séður. Helsti keppinautur hans var hinn fallni Bo Xilai. Í upphafi árs þótti aðeins formsatriði að þeir myndu erfa völdin. Bo bíður nú réttarhalda fyrir spillingu og eiginkona hans situr í fangelsi fyrir morð.
Xi er varkár og gætinn og ræðst gegn spillingu í ræðu og riti. Hann var sendur til Sjanghaí árið 2007 rétt eftir að forustumaður kommúnistaflokksins þar hafði hrökklast frá út af hneykslismáli. Þar var honum boðið stórt einbýlishús til að búa í, en hann kaus frekar að vera í íbúð án íburðar.
Fyrir átta árum varaði Xi flokksfélaga sína við því að ganga spillingunni á vald: „Hafið taumhald á mökum ykkar, börnum, skyldmennum, vinum og starfsfélögum og heitið því að nota vald ykkar ekki ykkur til persónulegs framdráttar.“
Hans nánustu virðast ekki hafa tileinkað sér þessi orð. Fréttaveitan Bloomberg birti í sumar yfirlit yfir töluverðar eignir skyldmenna Xis. Þar var því ekki haldið fram að hann hefði auðgast persónulega, en eins og kemur fram í fréttaskýringu í nýjasta tölublaði Der Spiegel lokuðu ritskoðarar landsins samstundis á aðgang að þessum upplýsingum.
Efnahagsuppgangur Kína hefur verið hraður. Á þremur áratugum hefur landsframleiðsla þrjátíufaldast. Kínverjar eru komnir fram úr Þjóðverjum og Japönum og forskot Bandaríkjanna minnkar hratt.
„Leiðtogar Kína vilja hins vegar meira: Þeir vilja að land þeirra verði viðurkennt sem fyrirmynd, sem annað val gagnvart hinu vestræna stjórnarfari. Stjórnmálamenn í Aríku og rómönsku Ameríku (og margir viðskiptaleiðtogar í Evrópu) eru reyndar hrifnir af hugmyndinni: óbeislaður kapítalismi án kosninga og án annarra þátta lýðræðisins sem haldið er fram að hleypi öruggri áætlanagerð í uppnám, að sama skapi mildilegt einræði, yfirráð eins flokks, þar sem bestu stjórnendurnir finna bestu leiðina eftir gjöfular, og jafnnvel harðar umræður,“ segir í Der Spiegel.
Í stjórnmálaráði kínverska kommúnistaflokksins sitja 24 karlar og ein kona. Níu manns úr ráðinu mynda fastanefnd þess, sem hefur mest völd í landinu. Úr þeim hópi eru forsetinn og forsætisráðherrann valdir. Á tíu ára fresti skiptir flokkurinn um æðstu stjórnendur. Nú ætla Hu Jintao, forseti og flokksformaður, og Wen Jiabao forsætisráðherra að draga sig í hlé. Þar með hyggst flokkurinn einnig sýna að valdaskipti geti farið fram án átaka.
Ekki er þó allt eins og best verður á kosið í Kína. Efnahagsvélin hikstar og dregur úr hagvexti. Mál Bos ber vitni spillingu í innsta valdahring. Helstu ráðamenn landsins og ættbogi þeirra er vellauðugur og það er hið mesta feimnismál í kínverskum fjölmiðlum. Xi Jinping mun ekki innleiða lýðræði í Kína, en sérfræðingar segja ekki loku skotið fyrir að hann muni innleiða meira frjálsræði en nú er.
Xi Jinping er 59 ára gamall. Faðir hans var valdamaður í kommúnistaflokknum á sínum tíma. Á sjötta áratug 20. aldar stýrði hann áróðursdeild flokksins. Honum var gefin óhollusta að sök og í menningarbyltingunni sex árum síðar var hann settur í fangelsi. Xi Jinping var þá sendur í nauðungarvinnu út í sveit, 15 ára gamall.
Samt sótti hann um að komast í flokkinn og í tíundu atrennu tókst það. 22 ára sneri hann aftur til Peking, fór í háskóla og hóf að klifra upp metorðastigann. 32 ára varð hann varaborgarstjóri í Xiamen, 2007 varð hann leiðtogi kommúnistaflokksins í Sjanghaí og félagi í stjórnmálaráðinu. 2008 varð hann varaforseti.