Hópur fólks reyndi í dag að komast inn á sjúkrahúsið í Birmingham þar sem hin 14 ára gamla Malala Yousafzai liggur og berst fyrir lífi sínu. Fólkið hélt því fram að það væri fjölskylda hennar en starfsfólk sjúkrahússins tók það ekki trúanlegt. Stúlkan var flutt frá Pakistan til Bretlands í gær.
David Rosser lækningaforstjóri Queen Elizabeth-sjúkrahússins í Birmingham, þar sem Malala liggur á gjörgæslu, segir að störf sjúkrahússtarfsfólk hafi verið trufluð en atvikið hafi ekki ógnað öryggi stúlkunnar. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan í Birmingham segist nú rannsaka hverjir hafi verið þarna á ferð.
Malala Yousafzai var skotin í höfuðið á leið heim úr skólanum af talíbönum sem réðust inn í skólarútuna. Vildu þeir þannig stöðva baráttu hennar fyrir menntun stúlkna í Pakistan. David Rosser segir að vel sé búið að henni á sjúkrahúsinu í Birmingham en að sögn lækna munu næstu dagar ráða úrslitum í bata hennar.