Fundu snekkju úr farþegaflugvél

Farþegaþota Air Canada.
Farþegaþota Air Canada. mbl.is

Kanadísk farþegaflugvél fór af áætlaðri leið og fann snekkju sem hafði orðið vélarvana á Tasmaníuhafi. Snekkjuna hafði rekið um í viku áður en landhelgisgæslunni í Ástralíu barst neyðarkall frá henni.

Farþegaflugvélin var á leið til Sydney þegar henni barst ósk frá áströlsku landhelgisgæslunni um að svipast um eftir snekkjunni.

Flugmennirnir tóku til þess ráðs að lækka flugið í um 5.900 feta hæð og notuðust við sjónauka í leit að snekkjunni. Eftir stutta leit fundu flugmennirnir snekkjuna sem var um 500 km austur af Sydney.

Maðurinn sem sigldi snekkjunni var einn á ferð og hafði rekið um í eina viku eftir að mastur skipsins brotnaði.

Flugvélin, sem var frá flugfélaginu Air Canada, var á leið frá Vancover í Kanada og hafði verið á lofti í um 12 klukkustundir þegar neyðarkallið barst. Fór hún um 400 km af leið í leit sinni. Flugvélin lenti svo í Sydney um 90 mínútum á eftir áætlun. 270 farþegar voru um borð.

Björgunarflug var sent á staðinn og var manninum til halds og traust á meðan bátur strandhelgisgæslunnar sigldi til hans. Maðurinn reyndist heill á húfi en fjarskiptabúnaður bátsins var í ólagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert