Hótaði einnig að myrða Obama

Quazi Mohammad Rezwanul Ahsan Nafis,  sem er í haldi lögreglu í New York vegna sprengjutilræðis við Seðlabanka Bandaríkjanna, hótaði einnig að myrða Barack Obama, Bandaríkjaforseta. Þetta segir bandaríska fréttastofan ABC. Nafis var leiddur fyrir dómara í kvöld og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Nafis sem er 21 árs og frá Bangladesh verður að öllum líkindum kærður fyrir að tilraun til notkunar þungavopna og fyrir tengsl sín við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Nafis var handtekinn þegar hann reyndi að sprengja fimm hundruð kílóa sprengju sem hann hafði komið fyrir í sendibifreið við útibú Seðlabanka Bandaríkjanna í New York.

Hann var í fjarlægð við bílinn og var kveikibúnaður sprengjunnar stilltur þannig að hægt væri að virkja hann með farsíma. Eins og komið hefur fram var þó aldrei hætta á ferðum þar sem aldrei var um sprengju að ræða.

Í dómskjölum kemur fram að Nafis hafi komið til Bandaríkjanna í janúar til að fremja hryðjuverk. Hann hafi leitað að samverkamönnum á netinu og hitti einn í sumar sem hann taldi að væri á sínu bandi en var í raun útsendari bandarísku alríkislögreglunnar. 

Nafis lýsti yfir áhuga sínum á að sprengja Seðlabanka Bandaríkjanna og hóf hann ásamt útsendaranum að skipuleggja verknaðinn. Útsendarinn útvegaði svo „sprengiefnin“ en Nafis kveikibúnaðinn.

Eftir að hafa lagt sendibílnum fór Nafis á nærliggjandi hótel þar sem hann tók upp myndband, játaði verknaðinn og hugðist virkja sprengjuna með farsíma sínum en án árangurs. Þá ruddust lögreglumenn inn og handtóku hann.

Quazi Mohammad Rezwanul Ahsan Nafis.
Quazi Mohammad Rezwanul Ahsan Nafis.
Quazi Mohammad Rezwanul Ahsan Nafis.
Quazi Mohammad Rezwanul Ahsan Nafis. -
Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert