Barack Obama forseti og áskorandi hans í forsetakosningum í næsta mánuði, repúblikaninn Mitt Romney, tókust harkalega á í kappræðum sem fram fóru í nótt að íslenskum tíma. Flugu meinyrði þeirra í millum er þeir glímdu um skattamál, efnahagsmál og utanríkismál.
Obama gekk mun harðar fram en í fyrstu kappræðunum sem Romney var almennt talinn hafa unnið. Sakaði hann keppinaut sinn um óljósan málatilbúnað og áform um að gera hina ríku ríkari á kostnað þeirra sem minna mættu sín. Beitti hann þeirri aðferð að nota orð og málaskrá Romney gegn honum sjálfum.
Fréttaskýrendur eru á því að Obama hafi farið með sigur af hólmi að þessu sinni, verið afslappaðri og ákveðnari og notið sín betur og betur eftir því sem á 90 mínútna kappræðurnar leið. Aftur á móti hafi Romney verið stirðlegur og óþjáll, eins og óþolinmóður sölumaður. Þá þykir honum hafa orðið á í messunni er hann sakaði Obama um að hafa ekki þegar í stað lýst drápinu á sendiherra Bandaríkjanna í Benghazi í Lýbíu sem hryðjuverki. Bað Obama hann um að lesa afrit af því er hann og Hillary Clinton utanríkisráðherra skýrðu frá atburðinum í Rósagarði Hvíta hússins. Sneri Romney sér þá að umræðustjóranum sem tók undir með Obama.
Í kappræðunni út í gegn svaraði Romney jafnan harðri sókn Obama fullum hálsi og sagði forsetann hafa vonda og að misheppnaða stefnu að verja.
Obama freistar þess að halda velli og naumu forskoti í níu mikilvægum ríkjum þar sem úrslit forsetakosninganna eru talin geta ráðist. Skoðanakönnun sem birt var skömmu fyrir kappræðurnar í gærkvöldi í Hofstra-háskólanum á Long Island í New York sýnir að meðal kjósenda á landsvísu sem líklega munu fara á kjörstað nýtur Romney nú fylgis 50% en Obama 46%.
Báðir rásuðu fram og aftur á sviðinu er þeir höfðu orðið, mæltu af krafti og tilfinningaþunga. Greip hvor um sig ótt og títt frammí fyrir hinum. Obama minnti á mörg afrek sín á forsetastóli og nefndi t.a.m. að hann hefði bjargað bílaiðnaðinum í kreppunni sem hann sagði að Romney hefði viljað að látinn yrði fara á hausinn.
Þeir tókust grimmilega á um orkumál og sagði Romney eldsneyti hafa tvöfaldast í verði í forsetatíð Obama. Forsetinn sagði það afleiðingu efnahagshrunsins snemma árs 2009 og kreppunnar og bætti við að efnahagsstefna Romney myndi fátt annað gera en bæla niður efnahagslífið á ný.
Er á leið freistuðu báðir frambjóðendur ítrekað að höfða til millistéttarinnar. Obama minnti í því sambandi á að hann hefði lækkað skatta þessa fólks og smáfyrirtækja. Og væri ætlunin að ná niður ríkishallanum yrðu hinir ríkari að taka meira á sig. „Romney og félagar hans í þinginu hafa haldið 98% þjóðarinnar í gíslingu því þeir vilja ýmsar skattaundanþágur fyrir hin tvö prósentin,“ sagði Obama.
Romney svaraði því til að hann hefði engin áform um að lækka skatta þeirra auðugustu, heldur myndu 5% þjóðarinnar áfram standa undir 60% skattanna eins og væri í dag.
Obama sakaði keppinaut sinn um að hafa ekki stutt frumvarp um aukin launajöfnuð kynjanna, en einna hörðust varð glíma þeirra þegar þeir tókust á um auð Romney sem reyndi að verja fjárfestingar sínar og auðsöfnun í Kína. Hélt hann því fram að Obama fyndi áreiðanlega fjárfestingar í eigin eftirlaunasparnaði ef grannt væri skoðað. Svaraði forsetinn því til að hann skoðaði sparnað sinn lítt því hann væri svo miklu minni en mótframbjóðandans.
Þriðju og síðustu kappræður Obama og Romney fara fram 22. október.