Minna en helmingur 55-64 ára fólks í vinnu

AFP

„Mikilvægar lýðfræðilegar breytingar eiga sér stað í Evrópusambandinu en hærri lífaldur og lægri fæðingartíðni þýðir að á allra næstu áratugum eru líkur til þess að við munum sjá mikla aukningu á eldri starfsmönnum,“ segir í fréttatilkynningu frá Vinnuverndarstofnun Evrópusambandsins í tilefni af því að árið 2012 er Evrópuár virkrar öldrunar og samstöðu á milli kynslóðanna en stofnunin er stuðningsaðili þess.

Bent er á að nú um stundir vinni minna en helmingur alls fólks í Evrópusambandinu á aldrinum 55-64 og flestir eldri starfsmenn hætti þátttöku á vinnumarkaði áður en þeir eigi rétt á lífeyri frá viðkomandi ríki. Hluti af þátttöku Vinnuverndarstofnunar ESB sé að miðla upplýsingum til eldri starfsmanna og ennfremur upplýsingum um það hvernig bæta megi vinnuaðstæður þeirra og aðstoða þá við að viðhalda vinnugetunni.

„Yfirleitt fer fólk snemma á eftirlaun vegna heilsufarsvandamála (og sérstaklega vegna vinnutengdra heilsufarsvandamála). En ef við eigum að veita borgurum Evrópu fjárhagslegan stuðning eftir því sem þeir lifa lengur þurfa eldri starfsmenn að vera lengur á vinnumarkaði,“ segir í tilkynningunni og vísað í rannsókn sem gerð var fyrir stofnunina sem sýni að 87% Evrópubúa finnist góð vinnuvernd mikilvæg svo að fólk vinni lengur áður en farið er á eftirlaun.

„Rannsóknin sýnir líka, reyndar, að margir Evrópubúar halda að aðstæður á vinnustað þeirra geri þeim ekki kleift að vinna fram á gamals aldur: yfir helmingur segir að vinnustaðir þeirra séu ekki aðlagaðir að þörfum eldra fólks,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert