Ein fleygustu ummæli kappræðna forsetaframbjóðandanna í nótt virðast vera í frásögn Mitt Romneys um „möppur fullar af konum“. Þannig komst hann að orði þegar talið barst að stöðu kvenna á vinnumarkaði og þótti heldur óheppilegt. Ummælin urðu að s.k. internet „meme“ á einni nóttu.
„Þetta er mikilvægt umfjöllunarefni og nokkuð sem ég hef lært mikið um, sérstaklega sem ríkisstjóri [Massachusetts], af því að þá hafði ég færi á því að setja saman stjórn og allir umsækjendurnir virtust vera karlar,“ sagði Romney.
Og bætti við: „Svo ég fór til starfsliðsins míns og sagði, „Hvernig stendur á því að allt fólkið sem býðst í þessi störf - það eru allt karlar.“ Og þau svöruðu: „Nú, þeir eru fólkið sem samræmast hæfniskröfunum.“ Þetta var árið 2003. Romney sagðist hafa svarað til: „Almáttugur minn, getum við ekki, getum við fundið einhverjar, einhverjar konur sem eru líka hæfar?“
Því næst fór starfsfólkið, að sögn Romney og „beitti sér sérstaklega fyrir því að fara og finna konur með bakgrunn sem talist gæti hæfilegur til að þær gætu orðið meðlimir í stjórninni. Ég fór til fjölda kvennahreyfinga og sagði: „Getið þið hjálpað mér að finna konur“ og þær færðu mér möppur fullar af konum (e. Binders full of women).“
Þetta einkennilega orðalag vakti samstundis athygli netverja sem fylgdust með kappræðunum og innan skamms var merkið #bindersfullofwomen byrjað að breiðast um Twitter og Tumblr og á facebook var stofnuð síðan Binders full of Women sem rúmlega 200.000 manns hafa „líkað við“ nú í morgunsárið.
Gagnrýnendur segja hann tala niður til kvenna. Ummælin séu taktlaus og lýsi litlum skilningi á raunverulegum málefnum kvenna á vinnumarkaði. Aðrir segja hins vegar að andstæðingar Romney hafi verið að bíða eftir því að hann segði eitthvað sem talist gæti óheppilegt til að blása það upp.