Vændishneyksli skekur nú bandaríska smábæinn Kennebunk í Maine. Í ljós hefur komið að fjöldi karla keypti vændi af zumba kennara. Titringurinn stafar þó af því að dómari hefur hafnað kröfum karlanna um að njóta nafnleyndar. Talið er að meðal þeirra séu ýmsir framámenn í samfélaginu.
LA Times segir frá því að nöfn mannanna séu birt jafnóðum eftir því sem þeim er stefnt fyrir dóm fyrir vændiskaup. Í þessari viku birtist 21 nafn, eftir harðar deilur fyrir dómstólum, og lögreglan í Kennebunk áætlar að alls verði um 150 mönnum birt stefna. Um 10.000 manns búa í Kennenbunk og ekki þarf að koma á óvart að mikið er rætt um hverjir þessir karlar eru og hafa sumir þeirra krafist þess fyrir dómstólum að njóta nafnleyndar. Málið hefur haft ýmsar afleiðingar í för með sér, m.a. sagði hokkíþjálfari í gagnfræðaskóla bæjarins af sér eftir að nafn hans var birt.
Málið komst upp þegar lögreglan handtók vændiskonuna, Alexis Wright, þann 9. október. Hún rekur dansstúdíó í bænum þar sem hún kennir zumba, en hefur verið ákærð fyrir að bjóða þar einnig upp á vændi. Að sögn lögreglu hafði hún 150.000 Bandaríkjadali upp úr krafsinu á 18 mánuðum. Það nemur um 18 milljónum króna. Yfirvöld segja að hún hafi tekið samskipti sín við kúnnana upp án þeirrar vitneskju.
Dómarinn Thomas Warren komst í fyrstu að þeirri niðurstöðu að aðeins skyldi birta nöfn þeirra sem verði ákærðir, en hvorki aldur né heimilisfang. Þetta kom hins vegar fljótt af stað fjaðrafoki þegar fjölmiðlamenn tóku að spyrjast fyrir og reyna að hafa uppi á réttum mönnum með því að hringja í alla sem báru sömu nöfn og á listanum.
Þannig lenti til dæmis Paul nokku Main í því á mánudagsmorgni að síminn tók að hringja látlaust og sjónvarpsmenn birtust á dyraþrepinu hjá honum. Main er ekki einn af viðskiptavinum vændiskonunnar, en einhver með sama nafni er á listanum. Hann reynir nú að hreinsa nafn sitt. „Ég hef ekkert á móti því að nöfn þessara manna séu birt, mér finnst það bara frábært. En ég tel ekki rétt að fara hálfa leið með það,“ hefur LA Times eftir Maine, sem er sjálfur fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður.
Dómarinn gaf á endanum eftir í dag og verður aldur og heimilisfang mannanna einnig birt um leið og þeim verður stefnt.