Fyrrverandi uppreisnarmenn í bandalagi við líbanska herinn réðust í gær á vígi harðra stuðningsmanna hins fallna einræðisherra Múammar Gaddafi. Að minnsta kosti 11 féllu í átökunum sem sögð eru undirstrika þá erfiðu stöðu sem blasir við nýjum stjórnvöldum í landinu.
Nákvæmlega ár var í gær liðið síðan sveitir uppreisnarmanna lýstu yfir frelsi bæjarins Bani Walid, um 170 km vestur af Tripoli, frá stjórn Gaddafis. Engu að síður er þar enn talið eitt höfuðvígi þeirra sem enn eru hliðhollir fyrrverandi ríkisstjórn Gaddafis.
Kastljósinu varð aftur varpað á Bani Walid í síðasta mánuði eftir að lík fyrrverandi uppreisnarmanns frá Misrata, Omar ben Shabaan sem sagður er eiga heiðurinn af því að koma höndum yfir Gaddafi, fannst þar en talið er að honum hafi verið rænt, hann pyntaður og skotinn til bana. Dauði hans vakti upp mikla spennu milli Misrata og Bani Walid, en þar höfðust stríðandi fylkingar við í átökunum 2011.
Þjóðþing Líbíu sem kjörið var í júlí fyrirskipaði að þeir sem drápu Shabaan skyldu eltir uppi og hervaldi beitt ef þörf krefði. Umsátursástand hefur ríkt vikum saman í Bani Walid og í gær var ráðist að bænum úr þremur áttum. Að sögn bæjarstjóra særðust tugir íbúa.
Tugir lítilla skæruliðahópa hafast við víðsvegar í Líbíu og er það verkefni stjórnvalda að halda þeim niðri á meðan unnið er að því að byggja upp her og lögreglu landsins á ný.