Um 28.000 Sýrlendinga er saknað, að sögn mannréttindasamtaka sem reyna að halda utan um afleiðingar átakanna í landinu. Fullyrt er að fólkið hafi horfið þegar það var numið á brott af hermönnum stjórnvalda.
Mannréttindasamtökin Avaaz segja að „enginn sé öruggur“ frá ógnarstjórn yfirvalda. Þau segjast hafa skráð nöfn 18.000 Sýrlendinga sem Sýrlandsher hafi numið á brott, og þekki til annarra 10.000 óstaðfestra tilfella. Samtökin hyggjast afhenda mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna skrárnar til rannsóknar.
Avaaz samtökin safna frásögnum almennra borgara í Sýrlandi sem segja frá eiginmönnum, sonum og dætrum sem herinn og vopnaðir menn hlynntir stjórnvöldum hafi numið á brott. „Sýrlendingar eru týndir upp af götunum af öryggissveitum og hermönnum og „hverfa“ inn í pyntingarklefa,“ hefur BBC eftir Alice Jay, talsmanni samtakanna.
Hún segir að það sé vísvitandi stefna að vekja ótta í nærsamfélögum hjá sýrlenskum fjölskyldum. „Hvort sem það er kona að kaupa í kvöldmatinn eða bændur að sækja sér eldsneyti, enginn er öruggur. Angistin sem fylgir því að vita ekki hvort eiginmaður þinn eða barn er á lífi elur slíkan ótta með fólki að það brýtur niður alla andspyrnu.“
Fabian Abdulghani, hjá bresku samtökunum Syrian Networ for Human Rights, áætlar sömuleiðis að um 28.000 manns hafi horfið síðan átökin hófust á síðasta ári. Sýrlensku samtökin Sawasaya telja að fjöldinn sé enn meiri.
„Miðað við upplýsingarnar sem við fáum frá heimildarmönnum okkar í litlu byggðunum um allt land þá teljum við að allt að 80.000 manns gætu hafa verið tekin með valdi og horfið. Það er verið að grípa fólk á götum úti í skjóli myrkurs, þegar enginn sér.“