Sýrlenskar herþotur létu sprengjum rigna yfir bæinn Maarel al-Numan í gær og drápu a.m.k. 49, þar af 23 börn. Friðarsendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Lakhdar Brahimi, kallar eftir vopnahléi í Sýrlandi í lok október og mannréttindafulltrúi SÞ biðlar til Öryggisráðsins um samstöðu gagnvart Sýrlandi.
Bærinn Mareet al-Numan er undir stjórn uppreisnarmanna, en þeir náðu honum á sitt vald hinn 9. október, til að tryggja sér svæði í grennd við tyrknesku landamærin.
Herþotur flugu yfir Marret al-Numan og nágrannasvæði fram eftir öllum degi í gær. Þær tóku dýfur yfir bænum og slepptu a.m.k. 10 sprengjum á íbúðarhverfi.
Sprengjurnar rústuðu að sögn björgunarmanna tveimur íbúðarhúsum og mosku, þar sem margar konur og börn höfðu leitað skjóls. Meðal fórnarlambanna er níu mánaða gamalt barn.
Búið er að losa flest líkin undan rústunum og voru þau flest flutt í bráðabirgðasjúkrahús, þar sem fréttaritari AFP segist hafa séð a.m.k. 32 blóðug lík vafin í hvít lök, þar á meðal sex börn og mörg sundurlimuð lík. Auk þess hafi sundurslitnum líkamshlutum verið safnað í plastpoka.
Fréttaritari AFP segir að eitt barn hafi misst höfuðið í sprengjuárásinni. Lík annars barn hafi verið togað úr rústunum enn sitjandi á reiðhjóli. „Sem stendur virðist sem aðeins þrír hafi lifað árásina af, þar á meðal tveggja ára barn,“ segir læknirinn Jaffar Sharhoub. „Hann fannst lifandi í örmum látins föður síns.“
Lakhdar Brahimi er á leið til Damaskus en hann hefur kallað eftir því að komið verði á vopnahléi í fjóra daga í landinu á meðan Eid al-Adha-hátíð múslíma stendur, en hún hefst 26. október. Áætlað er að alls hafi um 34.000 manns fallið í átökunum í Sýrlandi síðan í mars á síðasta ári.