Berlusconi: Hafði ekki mök við ólögráða vændiskonu

Fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, segist saklaus af ákæru um að hafa haft mök við ólögráða vændiskonu og að misbeita valdi sínu svo að lögreglan myndi sleppa henni úr haldi. Þetta kom fram við réttarhöldin í Mílanó í dag.

„Ég get sagt með fullri vissu að það gerðist ekkert kynferðislegt,“ sagði Berlusconi í morgun. „Ég beitti lögregluna í Mílanó engum þrýstingi.“

Berlusconi er sakaður um að hafa átt í kynferðislegu sambandi við stúlku er hún var sautján ára. Þá er hann sakaður um að hafa beitt lögregluna þvingunum er stúlkan var handtekin fyrir þjófnað árið 2010.

Verði hann fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér þriggja ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert