Svíar sem eru með tekjur upp á 25 þúsund sænskar krónur á mánuði greiða tæp 70% mánaðarlauna sinna til hins opinbera þegar skattar á neyslu og launatengd gjöld eru reiknuð með.
Þetta kemur fram í rannsókn sem framkvæmd var af Swedbank sem er með stærsta hóp viðskiptavina allra banka í Svíþjóð.
Rannsóknin tók mið af meðallaunum starfsmanna sveitarfélaga sem eru um 25 þúsund sænskar krónur. Það jafngildir um 475 þúsund íslenskum krónum.
Fleiri þættir voru rannsakaðir og samkvæmt niðurstöðunum greiðir tveggja manna fjölskylda með um 55 þúsund króna innkomu að meðaltali um 38 þúsund krónur í skatta og hvers konar opinber gjöld.
„Bein skattlagning á laun er eitt. En þegar skattar á neyslu og launatengd gjöld eru reiknuð með hækka álögur þrefalt,“ segir Maria Ahregart fjármálaráðgjafi hjá Swedbank í yfirlýsingu.
Í rannsókninni kemur jafnframt fram að stærstur hluti skattanna fari í rekstur sveitarfélaga eða um 35% og rekstur lífeyrissjóðskerfisins eða um 25%. Um 20% fer í beinan rekstur ríkisins.
Ahregart bendir þó á að hluti skattgreiðslna fari aftur í vasa skattgreiðenda. Nefnir hún barnabætur og ellilífeyrisgreiðslur í því samhengi.