Samið um bankaeftirlit á evrusvæðinu

„Fjölskyldumynd“ á fundi leiðtoga ESB í Brussel í Belgíu í …
„Fjölskyldumynd“ á fundi leiðtoga ESB í Brussel í Belgíu í gær. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa komist að samkomulagi um að innleiða eina eftirlitsstofnun fyrir banka evrusvæðisins. Hafist verður handa við að semja lagaramma um stofnunina 1. janúar 2013. Sagt er frá þessu á vef BBC.

Seðlabanki Evrópu mun engu að síður fara með æðstu ábyrgð bankamála og hafa vald til að grípa inn í mál hvaða banka sem er á evrusvæðinu. Samkvæmt BBC virðist í samkomulaginu felast málamiðlun milli Frakklands og Þýskalands, sem greindi áður á um það hvenær innleiða skyldi slíka stofnun og hversu mikla yfirstjórn seðlabankinn hefði.

Frakkar og framkvæmdastjórn ESB vildu sameiginlega yfirstjórn allra bankanna með seðlabankanna í fararbroddi og að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp í janúar. Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur hins vegar verið varkárari, að sögn BBC, og talið aðhald í fjármálum hvers ríkis vera forgangsmál.

Í 17 löndum evrusvæðisins eru um 6.000 bankar sem allir munu falla undir nýja eftirlitsstofnun, samkvæmt drögum. Þjóðverjar vildu hins vegar undanskilja stærstu kerfisbankana. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert