Andlitskrabbamein vegur að Tasmaníudjöflum

Tasmaníudjöfull.
Tasmaníudjöfull. GREG WOOD

Pokadýrið Tasmaníudjöfull er í útrýmingarhættu vegna smitandi andlitskrabbameins. Vísindamenn í Tasmaníuháskóla vinna hörðum höndum að lækningu á meininu til þess að koma í veg fyrir útrýminguna. Telja þeir nú að árásagjörn dýr séu líklegri til að drepast en önnur.


Krabbameinið uppgötvaðist fyrst árið 1996 en talið er að það sé ábyrgt fyrir því að um 60% stofnsins hafi þurrkast út. Talið er að það smitist dýranna á milli þegar þau slást og bíta hvert annað.

Vísindamenn leita nú lækninga við meininu.  Segja þeir að þeir Tasmaníudjöflar sem séu hvað árásagjarnastir séu líklegri til að fá krabbameinið en þau dýr sem bíti minna frá sér. 

„Niðurstöður okkar sýna að þeir sem eru með færri bit eru líklegri til þess að fá krabbameinið,“ segir Rodrigo Hamede hjá háskólanum í Tasmaníu.

„Það segir okkur að árásargjarnari dýrin bíti frekar í mein annarra dýra og sýkist þannig,“ segir Hamede.  

„Það segir okkur að meginvandamálið liggi hjá þeim dýrum sem bíta beint í æxlin en bitin sjálf eru ekki smitandi,“ segir Hamede.

Talið er að Tasmaníudjöflar geti lifað í sex mánuði að hámarki ef þeir fá meinið.

Tasmaníudjöfull er svipaður að stærð og meðalstór hundur og  er stærsta pokadýr heims sem er kjötæta. Hann hefur mjög háværan og óhugnanlegan skræk og er grimmur þegar hann nærist.

Hann dó út á meginlandi Ástralíu á 14. öld en lifði áfram í Tasmaníu. Stofninn hefur minnkað síðan seint á 20. öld vegna hins skæða andlitskrabbameins. 

CNN segir frá

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert