Takast á um utanríkismál í kvöld

Barack Obama og Mitt Romney takast á í sjónvarpskappræðum í …
Barack Obama og Mitt Romney takast á í sjónvarpskappræðum í kvöld. Kappræðurnar fara fram í Boca Raton í Flórída. MICHAEL REYNOLDS

Búist er við að um 60 milljónir kjósenda í Bandaríkjunum fylgist í kvöld með síðustu sjónvarpskappræðum Baracks Obama og Mitts Romneys. Mikið er í húfi fyrir frambjóðendurna, en kannanir benda til að fylgi þeirra sé hnífjafnt; báðir séu með um 47% fylgi.

Sýnt verður frá kappræðunum á RÚV, en þær hefjast kl. 1 eftir miðnætti að íslenskum tíma. Í kappræðunum verður lögð megináhersla á utanríkismál.

Búist er við að málefni Líbíu og Írans verði rædd í kvöld. Romney hefur gagnrýnt Obama fyrir veik viðbrögð við morðinu á Christopher Stevens, sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu. Romney hefur einnig viljað sýna meiri hörku í samskiptum við Íran, en um helgina bárust fréttir af því að stjórnvöld í Bandaríkjunum útilokuðu ekki beinar viðræður við ríkisstjórn Írans.

Samskiptin við Ísrael eru einnig mál sem búast má við að Romney muni gagnrýna Obama fyrir. Aðgerðir gegn hryðjuverkum verða einnig rædd, en þjóðaröryggismál hafa stundum skipt verulegu máli í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Obama getur þar hrósað sér af því að hafa grandað Osama bin Laden, en forveri hans í embætti vann að því markmiði í sjö ár án þess að ná árangri.

Þá er líklegt að samskiptin við Kína verði rædd í kappræðunum. Kína er vaxandi efnahagsveldi og keppir við Bandaríkin um störf og viðskipti. Obama hefur kært Kínverja til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og má búast við að hann leggi áherslu á að hann sé með þessu að verja störf í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert