Í hjólreiðunum er ekkert pláss lengur fyrir Lance Armstrong. Það sagði formaður Alþjóða hjólreiðasambandsins (UCI), Írinn Pat McQuaid, þegar hann tilkynnti að sambandið hefði sett bandaríska hjólreiðagarpinn í ævilangt bann og afmáð nafn hans úr afrekaskrám, þar á meðal var hann sviptur titlum fyrir sjö sigra í Frakklandsreiðinni (Tour de France), mestu hjólreiðakeppni heims. Goðsögn var Armstrong í lifenda lífi en nú hefur hann fallið af háum stalli og áleiðis í gleymskunnar djúp, eins og UCI vill að verði um Armstrong og arfleifð hans.
Lengi hefur Armstrong verið táknmynd þrautseigju í gríðarlegu mótlæti en nú blasir við að hans verði fremur minnst í sögunni sem einhvers óskammfeilnasta og harðsvíraðasta dópsvindlara í allri íþróttasögunni. Löngum hefur hann verið grunaður um græsku en jafnan borið af sér sakir og vísaði ávallt til þess að hann hafi á ferlinum farið í gegnum mörg hundruð lyfjapróf athugasemdalaust.
Armstrong gafst hins vegar upp í ágúst í sumar á því að verjast ásökunum bandarísku lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (USADA) um að hann hefði unnið stærstu sigra sína með hjálp lyfja – stóð þá einn uppi frammi fyrir, meðal annars, eiðsvörnum játningum fjölda fyrrverandi liðsfélaga sinna. Og veröldin hrundi svo endanlega yfir hann í gær þegar UCI strikaði hann út úr sögu hjólreiðanna.
Þvingaði lyfjanotkun fram innan liðsins
USADA hafði nýlega birt skýrslu upp á um eitt þúsund blaðsíður þar sem sekt Armstrong var á borð lögð. Þar sagði að Armstrong hafi verið lykilmaður í „flóknasta, faglegasta og árangursríkasta lyfjanotkunarverkefni sem íþóttirnar hafa nokkru sinni séð“. Þar segir ennfremur: „Hann var ekki barasta aðili í lyfjaneyslunni innan liðsins. Hann knúði hana áfram og þvingaði hana í gegn.“ Hann er m.a. borinn þeim sökum að hafa knúið marga liðsfélaga sína óviljuga til að taka þátt í lyfjaverkefninu svo þeir gætu veitt honum liðsinni í keppni á erfiðum áföngum keppna á borð við Tour de France.
McQuaid sagði sér hafi orðið flökurt við lesturinn og bætti við: „Það er ekkert pláss fyrir Lance Armstrong í hjólreiðunum“. Ákvörðunin um að kasta goðsögninni á glæ, einhverjum mesta afreksmanni hjólreiðanna, skilji arfleið hans eftir í tætlum. Gegn öllum þeim sem viljað hafa rakka hann niður hafa staðið enn fleiri aðdáendur. Í augum stuðningsmanna Armstrongs þykja ásakanirnar um lyfjanotkun hjóm í samanburði við baráttu hans upp á líf og dauða eftir að hann greindist með krabbamein og störf hans og líknarstofnunar hans í þágu krabbameinssjúkra.
Innan við 50% líkur á að lifa krabbameinið af
Læknar töldu innan við helmings líkur á að Armstrong lifði af er hann greindist með krabba í eistum árið 1996. Meinið hafði breitt úr sér og lagst á lungu og heila. Hann þraukaði gegnum skurðaðgerð og geislameðferð og öðlaðist nægan styrk til að geta snúið aftur til keppni í hjólreiðum. Var hann lítt þekktur í heimalandinu þar til hann vann Tour de France fyrsta sinni, árið 1999.
Drottnun hans á næstu árum varð hins vegar til að auka vinsældir hjólreiða í Bandaríkjunum með meiri og viðvarandi hætti en áður. Fékk hann um leið tækifæri til að koma starfsemi stofnunar sinnar, Livestrong, á framfæri og auka vitund á krabbameini og á mikilvægi rannsókna á sjúkdómnum. Um dagana hefur stofnuninni áskotnast um 500 milljónir dollara í styrktarfé frá stofnun, 1997.
Í kjölfar ásakananna hafa allir persónulegir styrktaraðilar Armstrong rift samningum við hann og hann hefur neyðst til að segja af sér sem stjórnarformaður Livestrong.
Eins og áður segir töldu margir að maðkur væri í mysunni þegar árangur og afrek Armstrong væru annars vegar. Árið 1999 kom í ljós merki í lyfjaprófi um að hann hefði notað bannað steralyf, corticostera. Breitt var yfir það með því að hann hafi haft leyfi til að nota agnarlitla skammta af kremi gegn söðulsæri á sitjandanum sem innihaldið hefði lyfið.
Ásakanir hrúgast upp
Eftir sigurinn í Frakklandsreiðinni árið 2000 gerði franska lögreglan leit hjá liði Armstrongs, US Postal, en sú rannsókn leiddi ekki til neinna ásakana. Níðlar garpsins héldu á lofti sambandi hans við ítalska lækninn og þjálfarann Michele Ferrari, sem settur var í bann á Ítalíu 2002 fyrir aðild að lyfjamáli. Ferrari er sagður hafa verið maðurinn á bak við kerfisbundna lyfjanotkun liðs Armstrong, US Postal, en auk þess að gleypa allskonar afreksaukandi lyf beittu liðsmenn sjálfsígjöf blóðs. Felst hún í því að þeim er dregið blóð, oftast hálfur lítri, og það geymt í frysti meðan líkaminn framleiðir að nýju það magn sem af var tekið. Síðan var því dælt aftur inn í viðkomandi hjólamann þegar keppnisdagur rann upp. Þar með barst vöðvunum aukið og stöðugt súrefni.
Árið 2004 neitaði kynningarfyrirtæki í Texas að borga honum 5 milljóna dollara bónus fyrir sjötta sigurinn í Tour de France vegna ásakana í evrópskum fjölmiðlum um lyfjanotkun hans.
Fór mál það fyrir bandarískan rétt, en þar vitnuðu fyrrum liðsfélagi hans, Frankie Andreu og kona hans Betsy, gegn Armstrong. Sögðust þau hafa orðið vitni að því er hann tjáði læknum í meðferðinni gegn krabbameininu, að hann hefði neytt stera og annarra lyfja til að auka afreksgetu sína.
Tvær bækur komu út í Evrópu árið 2005 með ásökunum um lyfjanotkun af hálfu Armstrong. Sama ár hélt franska íþróttablaðið L'Equipe því fram, að sýni úr Armstrong sem tekin voru í Frakklandsreiðinni 1999 hefðu við endurprófun í þágu nýrra og fullkomnari greiningartækni sýnt að hann hefði brúkað EPO, sem eykur súrefnisflutningagetu blóðs og þar með afreksgetu.
Lögreglan afhjúpar Armstrong - ekki íþróttahreyfingin
Armstrong barðist gegn þessum ásökunum, meðal annars fyrir dómstólum, áður en hann s sneri aftur til keppni í Tour de France 2009. Á endanum vógu sönnunargögnin gegn honum svo þungt – þar á meðal vitnisburður 11 fyrrum liðsfélaga hans – að undan þeim varð ekki risið. Eftir útstrikun alls árangurs Armstrong frá í ágúst 1998 er hann hóf keppni eftir krabbameinsmeðferðina, telst besti árangur hans í stórmóti vera 36. sætið í Frakklandsreiðinni 1995.
Hið athyglisverða við mál þetta allt, er að það var ekki íþróttahreyfingin sem felldi Armstrong af stalli. Hún hafði tekið á málum hans með öllum þeim meðulum og aðferðum sem henni var kleift en fékk engar játningar fram eða gat sannreynt framburði. Það var hins vegar bandaríska alríkislögreglan sem leiddi sannleikann í ljós.
Afleiðingarnar þessa banns eiga eftir að koma í ljós, en þegar hafa styrktaraðilar hans allir snúið baki við Armstrong, eins og að framan greinir. Og hann þykir jafnvel eiga yfir höfði sér kröfur um endurgreiðslur styrktarfjár, jafnvel upp á milljónatugi dollara. Þá er því spáð að til greina komi að bandaríski pósturin krefji hann um endurgreiðslur milljóna dollara sem lagðir voru til liðsins fyrst peningarnir voru notaðir í að kosta ólöglmæta lyfjanotkun.
Þá gerði framkvæmdastjóri Tour de France, Christian Prudhomme, í gær kröfu um að hann skilaði verðlaunafé fyrir sigrana sjö 1999-2005. Þar er um að ræða um þrjár milljónir evra. „Við viljum að enginn verði skráður sigurvegari þessara ára,“ sagði Prudhomme en flest allir helstu keppinautar Armstrong um sigurinn hafa ýmist fallið á prófum á þessu árabili eða seinna – eða játað á sig lyfjanotkun eftir að keppnisferli lauk.
Einu viðbrögð Armstrongs
Einu viðbrögðin frá Lance Armstrong eftir ákvörðun UCI í gær eru þau, að hann hefur fjarlægt af twittersíðu sinni skírskotun til sigra sinna sjö í Tour de France. Í prófíl hans þar segir: „El upp börnin mín fimm, glími við krabbamein, syndi, hjóla, hleyp og spila golf þegar ég get.“ Allt þar til hádegi sí gær stóð þar: „Faðir fimm frábærra barna, sigraði 7 sinnum í Tour de France, í fullu starfi í baráttunni gegn krabbameini, áhugakeppandi í þríþraut.“
Þótt engin önnur viðbrögð hafi borist frá Armstrong eða fulltrúum hans var hann hvergi banginn í ágúst í sumar, er hann hætti baráttunni gegn USADA, en þá hélt hann því fram, að málum hefði verið hagrætt gegn sér og málatilbúnaðurinn ólöglegur. „Ég veit hver vann Frakklandsreiðina í þessi sjö skipti. Liðsfélagar mínir vita hver vann Túrinn þessi sjö ár. Og allir sem ég keppti við vita hver vann sjö sinnum,“ sagði Armstrong. Og klykkti út með orðunum: „Þetta er erfiðasta íþróttakeppni heims, sem aðeins sterkasti maðurinn vinnur. Því verður aldrei breytt.“