Leggja allt í sölurnar

Mitt Romney og Barack Obama tókust á í sjónvarpssal í …
Mitt Romney og Barack Obama tókust á í sjónvarpssal í nótt. AFP

Eftir hálfan mánuð fá Bandaríkjamenn tækifæri til að mæta á kjörstað til að kjósa sér forseta. Frambjóðendurnir Barack Obama og Mitt Romney hyggjast leggja allt í sölurnar næstu tvær vikurnar í þeim tilgangi að tryggja sér forsetastólinn.

Obama og Romney munu ferðast vítt og breitt um landið í þessari viku, en þeir munu koma fram á kosningafundum og stefna að því að verja auknu fé til að auglýsa sín framboð í lykilríkjum.

Í nótt mættust forsetaframbjóðendurnir í þriðju og síðustu sjónvarpskappræðunum þar sem þeir tókust á um utanríkismál. Obama hafði betur ef marka má tvær skoðanakannanir sem voru gerðar í kjölfar kappræðnanna.

Obama sótti hart að Romney sem hann sakaði um að vera ekki með neina stefnu í utanríkismálum. Romney svaraði fyrir sig og sakaði Obama um að hafa ekkert gert til að stöðva glundroðann í Mið-Austurlöndum.

Obama ferðast nú um Flórída og Ohio þar sem hann mun funda með stuðningsmönnum sínum á meðan Romney leitar eftir stuðningi íbúa í Nevada og Colordo. Þeir munu síðan ferðast til sex annarra lykilríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert