Obama heldur betri

Barack Obama og Mitt Romney luku þriðju og síðustu kappræðunum fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nótt. Almennt þótti Obama standa sig betur. Skömmu fyrir lokakappræðurnar mældust þeir með hnífjafnt fylgi á landsvísu.

Þótt Obama hafi staðið sig betur í nótt þykir ekki víst að það breyti miklu þar sem utanríkismál, sem rædd voru, þykja sjaldnast hafa haft úrslitaáhrif á niðurstöður kosninga.

Upphefst nú æsileg lokabarátta þar sem tekist verður á um að ná hylli kjósenda. Þrjú ríki, Flórída, Ohio og Virginía, eru þau ríki sem næsti forseti þarf að ná meirihluta í. Romney mælist nú hærri í Flórída en frambjóðendurnir eru nær jafnir í Virginíu. Flestar kannanir sýna Obama hærri í hinu mikilvæga Ohio fylki.  

Dotty Lynch, prófessor í almannatengslum við American-háskóla, segir að nú megi búast við því að áróðursvélar frambjóðendanna fari í gang af alvöru.

„Við munum sjá gríðarlegt magn auglýsinga frá frambjóðendunum. Þær munu beinast að ákveðnum hópum. Konum og verkamönnum,“ segir Lynch.   

Jafnframt má búast við því að framboð frambjóðendanna muni beina athygli að því að reyna að ná hylli kjósenda á götum úti með svokallaðri „götu fyrir götu“-aðferð. Þar með er átt við að tugþúsundir manna tengdar kosningaherferðum frambjóðendanna muni fara og heimsækja hverfi og heimili kjósenda. 

„Oft er það svo að þú kýst eins og sá sem þú þekkir, eða einhver í götunni sem þú býrð í eða einhver sem er í svipaðri aðstöðu og þú,“ segir Christhoper Atherton, prófessor í Washington-háskóla, í samtali við AFP-fréttastofuna.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka